svartsengi

Ávarp forstjóra

Rekstur gekk með ágætum

Rekstur HS Orku gekk með ágætum á árinu 2016. Árið var um margt heldur óvenjulegt í rekstri félagsins, eins og hér er rakið.

Um mánaðamótin nóvember-desember 2016 barst niðurstaða gerðardóms í máli sem HS Orka hóf sumarið 2014 um gildi orkusölusamnings við Norðurál Helguvík ehf. um fyrirhugaða orkusölu til álvers í Helguvík. Niðurstaðan var HS Orku í vil, á þá leið að hinn umdeildi orkusölusamningur væri ekki lengur í gildi. HS Orka vann fullnaðarsigur í málinu. Það er gríðarlegt fagnaðarefni fyrir félagið en óvissa um gildi samningsins og um það hvort álver yrði byggt í Helguvík hefur í fjölmörg ár heft framtíðaruppbyggingu félagsins.

Undir lok árs 2016 flutti HS Orka höfuðstöðvar sínar í Eldborg í Svartsengi, við hlið orkuversins. Aðalstöðvar félagsins höfðu alla tíð verið í Reykjanesbæ. Er þessi breyting mikið fagnaðarefni og verulega til batnaðar fyrir starfsemina og samskipti milli eininga og starfsmanna. Vegna flutninganna seldi HS Orka húseign sína á Brekkustíg í Reykjanesbæ. Erum við afar stolt og ánægð með þessa breytingu, sem er fyrirtækinu til framdráttar. 

Djúpborun á Reykjanesi

Í ágúst 2016 hófst borun djúpborunarholunnar IDDP-2 á Reykjanesi og lauk framkvæmdinni í janúar 2017. Hér er um að ræða umfangsmikið, flókið og kostnaðarsamt verkefni, í samstarfi fjölmargra aðila meðal annars Statoil, Orkuveitunnar, Landsvirkjun, Orkustofnunar og nokkra evrópskra aðila. Framkvæmd verksins tókst með miklum ágætum og lauk borun holunnar á 4.650 m dýpi. Öll helstu markmið verkefnisins náðust og eru miklar vonir bundnar við  að unnt verði að vinna orkuríkan vökva úr djúplægu og mjög heitu jarðhitakerfi á Reykjanesi úr djúpu holunni, mun dýpra en núverandi vinnsla nýtir. Verkið er rannsóknar- og þróunarverkefni, þar sem verið er að feta nýja slóð í jarðhitanýtingu. Vonir standa til að niðurstöður úr vinnsluprófunum nýju holunnar liggi fyrir í lok árs 2018.

Framleiðsla HS Orku var heldur minni en áætlað var á árinu 2016.  Heildar raforkuvinnsla var 1.189 GWh sem var um 7,2% undir áætlun ársins og um 8,1% undir framleiðslu ársins 2015.  Framleiðsla á Reykjanesi minnkaði í kjölfar viðhaldsstöðvunar á árinu og er nú unnið að aukningu framleiðslunnar aftur með sértækum aðgerðum sem skila góðum árangri.  Bera þessar aðgerðir gæðum orkuveranna og færni þeirra starfsmanna sem þau reka gott vitni, en rekstur jarðhitavirkjana er mjög flókin starfsemi.  

Rekstrartekjur 7,1 milljarðar

Rekstartekjur 2016 

7,1 milljarðar

Rekstrartekjur félagsins á árinu voru 7,1 milljarðar króna en voru 7,3 milljarðar króna árið 2015. Lækkun er um 3,3% á milli ára sem skýrist fyrst og fremst af lækkun tekna vegna raforkusölu til álbræðslu en álverð var óvenju lágt á árinu. Tekjur af raforkusölu voru 80% af tekjum félagsins árið 2016 en var 77% árið 2015.

HS Orka hefur aukið rafmagnssölu á smásölumarkaði á undanförnum árum. Hagnaður frá rekstri var 335 milljónir samanborið við 1,358 milljónir árið 2015. Minnkunin milli ára má aðallega rekja til aukinna rafmagnskaupa, kostnaður vegna gerðardóms og framkvæmdir við djúpborunarverkefnið.

  

 

 


Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku

Aukin orkuvinnsla á Reykjanesi

HS Orka hefur áfram unnið að aukinni orkuvinnslu í jarðvarmaverkefnum á Reykjanesskaga, í Eldvörpum og í Krýsuvík.  Verkefni þessi, sem eru mis langt á veg komin, eru afar tímafrek í undirbúningi. Aðal vinnan hefur verið á á sviði auðlindasamninga, leyfisveitinga, grunnrannsókna og frumhönnunar.  Á liðnu ári var gerður nýr samningur við landeigendur um jarðhitanýtingu á Suðurnesjum, boruð ný hola í Svartsengi, SVA-26, nýtt viðamikið niðurdælingarkerfi tekið í notkun á Reykjanesi og unnið að frekari undirbúningi annarra verkefna. 

Lokið var við gerð mats á umhverfisáhrifum vegna Brúarvirkjunar (10 MW) í Tungufljóti í Bláskógabyggð og var matið samþykkt.  Er nú unnið að undirbúningi útboðs á vélum, búnaði og framkvæmdum og fjármögnun verkefnisins er á lokastigi.  Er ráðgert að hefja framkvæmdir við Brúarvirkjun sumarið 2017.

HS Orka hefur ennfremur unnið að þróun nokkurra vatnaaflsverkefna.  Lagt var aukið hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði, vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (10 MW), auk annarra verkefna sem félagið vinnur að.  Á HS Orka nú um 70% eignarhlut í VesturVerki.   

Auðlindagarðurinn og önnur starfsemi

Auðlindagarðurinn, sem vakið hefur verðskuldaða athyli, hefur enn á ný sýnt sérstöðu sína.  Uppfærsla á áður gerðri skýrslu Gamma sem unnin var fyrir HS Orku og Bláa Lónið um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af starfsemi Auðlindagarðsins, leiðir í ljós svo dæmi sé tekið, að heildarfjöldi starfsmanna í Auðlindagarðinum er yfir 900. Þetta er mikið afrek þegar haft er í huga að starfsmenn HS Orku eru um 60. Unnið er að frekari þróun Auðlindagarðsins og má þar nefna að í byggingu er nýtt fiskeldi í nágrenni Svartsengis og hreinsun á brennisteinsvetni úr gasstraumum orkuversins og vinnslu á koltvísýringi í Svartsengi. Auk þess er í undirbúningi að á hreinsun og vinnslu á kísli á Reykjanesi.  Auk þess eru áform um nýja og áhugaverða verksmiðju Codlands á Reykjanesi, þar sem collagen verður unnið úr fiskroði. 

Fjárfestingar á árinu

 Á árinu 2015 var ennfremur gerður samningur um sölu á raforku til áformaðs kísilvers Thorsil í Helguvík.  Samningurinn er háður fyrirvörum um m.a. fjármögnun og er þess vænst að fyrirvörum verði aflétt á fyrri hluta árs 2017.

Fjárfestingar á árinu 2016 námu alls 2,1 milljörðum.  Stærstu fjárfestingarverkefnin voru boranir í Svartsengi og á Reykjanesi, , framkvæmdir við niðurdælingarlögn á Reykjanesi og rannsóknir vegna vatnsaflsverkefna.

Efnahagsreikningur félagsins hefur styrkst verulega á undanförnum árum og hafa skuldir fyrirtækisins farið hratt lækkandi.  Það er gleðiefni að eiginfjárhlutfall í árslok 2016 er tæp 67%.  Það undirstrikar getu félagsins til frekari fjárfestinga í náinni framtíð.  

Spennandi rekstrarár

HS Orka horfir fram á spennandi rekstrarár 2017 með traustum stoðum rekstrarins og upphafi framkvæmda við nýja framleiðslueiningu. 

HS Orka mun eftir sem áður veita mikilvæga þjónustu til uppbyggingar samfélagsins, til smærri og stærri aðila, með sölu á sinni þjónustu . 


Orkuverið í Svartsengi

Ávarp stjórnarformanns

Rekstur gengið vel

Rekstur HS Orku gekk einstaklega vel á síðasta ári. Rafmagnsframleiðsla var góð, þrátt fyrir að framleiðsla á Reykjanesi hafi aðeins dregist saman. Skuldir fyrirtækisins hafa lækkað hratt og efnahagsreikningurinn er sterkur. Framkvæmdastjórnin hefur staðið sig mjög vel og eru nokkur þróunarverkefni vel á veg komin. Mikilvægustu áfangar ársins voru sigur okkar fyrir gerðardómi í máli gegn Norðuráli, sem dregist hefur í sex ár sem og góður árangur í djúpborunarverkefninu IDDP-2 , þar sem borað var á Reykjanesinu.

Um mitt ár 2016 dróst framleiðsla óvænt saman á Reykjanesinu í kjölfar viðhaldsstopps. Ástæðuna teljum við að rekja megi til vatnsborðshækkunar í auðlindinni tengda niðurdælingu sem hafði áhrif á gufupúða svæðisins. Framleiðslan hefur aukist til muna síðustu mánuði með styrkingu gufupúða í kjölfar þess að við drógum úr niðurdælingu. Við bindum vonir við aukna framleiðslu á árinu 2017. Í Svartsengi hefur framleiðslan hins vegar gengið einstaklega vel, raforkuframleiðsla jókst við tengingu við nýrri borholu. Framleiðsla á heitu vatni og öðrum straumum hefur einnig gengið vel. 

Fjárhagsáætlanir og rekstrarafkoma stóðust

Fjárhagsáætlanir og rekstrarafkoma ársins stóðust þrátt fyrir minnkandi tekjur vegna lágs álverðs. Smásala á rafmagni er vaxandi og nýir mikilvægir viðskiptavinir hafa bæst í hópinn. 

Árið 2016 tókum við stórt og mikilvægt skref er við fluttum höfuðstöðvarnar í Svartsengi, í næsta nágrenni við orkuverið. Eftir flutningana samnýtum við ekki lengur þjónustu með HS Veitum. 

Nýja niðurdælingarkerfið á Reykjanesi var tekið í notkun í upphafi árs 2016 og mun það auka stöðugleika og framleiðslu. 

Þó að HS Orka leggi kapp á að greiða niður skuldir og veita fé til nýrra verkefna til eflingar fyrirtækisins voru 360 miljónir króna greiddar í arð til hluthafa árið 2016. Arðinn fékk fyrirtækið vegna 30% eignarhlutar síns í Bláa Lóninu. Á árinu 2016 fór rekstur Bláa Lónsins enn og aftur fram úr væntingum, bæði vegna aukinnar aðsóknar og framúrskarandi reksturs. Nýtt lúxushótel og heilsulind tekur til starfa í Bláa Lóninu síðar á árinu.

Eins og áður hefur komið fram var stærsti áfangi síðasta árs sigur í gerðardómsmáli um túlkun raforkusamnings við Norðurál í Helguvík. Niðurstaða gerðardóms var sú að samningur HS Orku og Norðuráls væri ekki lengur í gildi. Niðurstaðan gefur okkur skýrari framtíðarsýn og gerir okkur kleift að selja rafmagn á samkeppnismarkaði, þegar ný raforka verður fáanleg. Ég vil lýsa yfir þakklæti til þeirra sérfræðinga á Íslandi, Kanada og annars staðar sem unnu hörðum höndum að málinu, þar á meðal allir í framkvæmdastjórn HS Orku.

Tilraunaboranir á Reykjanesi 

Fyrsta vatnsafls verkefnið okkar er að nálgast framkvæmdarstig. Er þar um að ræða Brúarvirkjun, 10  MW, sem stendur til að hefji rekstur í byrjun árs 2019.

Í ágúst hófust boranir á IDDP-2 holunni á Reykjanesi í samstarfi við Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP). Helsti samstarfsaðili okkar í borverkinu var norska fyrirtækið Statoil, en Jarðboranir sáu um borun holunnar. Borverkinu lauk í janúar 2017 á 4.650 m dýpi. Fyrstu niðurstöður eru áhugaverðar og benda til mögulegs vinnslusvæðis undir núverandi vinnslusvæði á Reykjanesi. Hitastig hefur mælst vel yfir 400°C. Frekari rannsóknir á holunni verða gerðar árin 2017-2018 og er líklegt að þetta árangursríka verkefni geti haft mjög jákvæð áhrif á starfsemi HS Orku sem og allan jarðvarmageirann.

Auðlindagarðurinn

Auðlindagarðurinn heldur áfram að blómstra. Starfsfólk HS Orku telur um 60 manns en í Auðlindagarðinum um og yfir 900 manns. Nýtt fiskeldi er í bígerð nálægt Svartsengi sem mun nota varma úr affallsvökva frá orkuverinu. Þá erum við að leggja lokahönd á gashreinsistöð í Svartsengi til að hreinsa H2S og CO2 úr gufunni sem orkuverið gefur frá sér. Um stórt skref er að ræða, bæði í umhverfislegu tilliti sem og fjárhagslegu, þar sem CO2 verður síðar selt sem ný vara úr orkuverinu í Svartsengi. Markmið okkar er halda áfram að þróa Auðlindagarðshugmyndina svo flestir geti nýtt auðlindastraumana á sem besta mögulega hátt, samfélaginu og umhverfinu til heilla. Við erum afar stolt af því að geta nýtt kosti jarðvarmans, framúrskarandi þekkingu starfsfólks okkar og fjármagn til að útvega viðskiptavinum okkar hreina orku. 

Þakkir til starfsfólks

 Ég vil þakka öllu starfsfólki HS Orku, framkvæmdastjórum og stjórnendum fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf sem það hefur lagt af mörkum þar sem áskoranir hafa oft á tíðum verið miklar. Ég vil líka þakka hluthöfum í HS Orku, Alterra Power Corp. og Jarðvarma, sem munu halda sínu samstarfi áfram, með góðri samvinnu og velvilja í garð fyrirtækisins. Það er von mín að árið 2017 verði enn eitt árið sem einkennist af stöðugleika og jákvæðri niðurstöðu fyrir fyrirtækið.      

Anddyri HS Orku

Árið í hnotskurn 2016

 HS Orka gerist aðili að Festu

28. janúar

 Aðalfundur HS Orku

11. mars

 Samningur við Halldór Topsoe um gashreinsun

25. apríl

 Rannsóknar- og nýtingarsamningur við landeigendur að Stóru-Sandvík undirritaður

26. apríl

Þriggja mánaða uppgjör birt

10. maí

 Tilkynnt um sameiginlegan styrk HS Orku og BL um uppbyggingu á Reykjanesi

23. júní

 Loftlagsmarkmið HS Orku sett

28. júní

 Kynningarfundur um Hvalárvirkjun

7. júlí

Sex mánaða uppgjör birt 

9. ágúst

 Djúpborun hefst á Reykjanesi

11. ágúst

 Djúpborun komin á 2.961 metra dýpi

1. september

 Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Brúarvirkjunar birt

20. september

 Fyrsti kjarninn í djúpborunarverkefninu næst á 3.647 metra dýpi

29. október

Níu mánaða uppgjör birt

8. nóvember

 Jákvæð niðurstaða fæst úr gerðardómsmáli við Norðurál

30. nóvember

 Höfuðstöðvar HS Orku fluttar í Eldborg í Svartsengi

16. desember

Djúpborunarholan komin í 4.626 metra dýpi

31. desember
Starfsfólk HS Orku í nýjum höfuðstöðvum í Svartsengi

Fjármálasvið

Árið 2016 einkenndist af miklum breytingum á fjármálasviði. Bæði var töluverðum kröftum varið í að uppfæra og innleiða ný tölvukerfi og jafnframt fylgdi flutningunum af Brekkustíg í Eldborg töluverð vinna og breytingar, stærsti hluti breytinganna var endanlegur aðskilnaður á sameiginlegri þjónustu frá HS Veitum. Þurfti að breyta skipulagi, starfslýsingum og starfsháttum töluvert til að takast á við breyttan veruleika. Í þessu fólust talsverðar áskoranir en jafnframt tækifæri til að bæta og straumlínulaga verkaferla og kerfi. 

Breytingar hjá fjármálasviði

Verkefni fjármálasviðs eru fjölþætt og undir sviðið heyra bókhald og fjármál, áhættustýring, tryggingar, fjárhagsáætlanagerð, fyrirtækisins. Sviðið seldi fram til áramóta HS Veitum þjónustu bókara, gjaldkera og sérfræðinga í fjármálum. Þetta breytist eftir flutninginn. Þjónusta sem áður var keypt af HS Veitum á sviði upplýsingatæknimála, innheimtumála og innkaupa hefur nú verið tekin yfir af HS Orku. Þetta hefur kallað á töluverða endurskilgreinungu á hlutverkum. Má segja að breytingin hafi í meginatriðum tekist vel og er fjöldi starfsmanna sá sami og fyrir breytingarnar..

Ýmsum hlutverkum sem áður voru unnin af starfsmönnum HS Veitna eins og til dæmis símsvörun, gjaldkeravinnu, skjalavörslu og umsjón skrifstofu varð að finna nýjan farveg. Margir starfsmenn tókust á við ný og fjölbreyttari verkefni og fengu breiðara ábyrgðarsvið þegar verkefni sem þeir höfðu áður unnið fyrir HS Veitur fóru annað. Þá var ráðinn starfsmaður í stöðu skrifstofustjóra, Arna Björg Rúnarsdóttir. Hóf hún störf í haust og var hennar fyrsta verkefni að stýra og hafa umsjón með flutningi skrifstofunnar í Eldborg. Tókst það verkefni gríðarlega vel og gengu flutningarnir hnökralaust fyrir sig.

Uppfærsla á bókahaldi

Í byrjun ársins var tekin í notkun viðamikil uppfærsla á fjárhagsbókhaldi og launabókhaldi fyrirtækisins en það hafði ekki verið uppfært frá árinu 2008. Sökum þess hve langur tími var liðinn frá síðustu uppfærslu var verkefnið verulega umfangsmikið. Uppfærslan gekk nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Samhliða þessu var innleitt tól sem heldur utan um vöruhús gagna og nýtt greiningartól fyrir fjárhagsupplýsingar. Gekk þetta vel og eru þessi kerfi komin í notkun og ávinningurinn töluverður. 


 

Í Svartsengi

Tölvukerfið flutt

Strax og ljóst var að HS Orka myndi flytja höfuðstöðvar sínar var líka ljóst að flóknasti og erfiðasti þáttur þess verkefnis væri að flytja tölvukerfi sem áður höfðu verið samnýtt með HS Veitum yfir á nýjan stað og tryggja að þar væri hægt að halda uppi starfsemi án truflunar. Kom sér vel að fyrirtækið hafði áður unnið töluverða stefnumótun í upplýsingatækni í samstarfi við Advania. Verkefnið var í meginatriðum tvíþætt og lýtur annars vegar að stjórnbúnaði orkuveranna og hins vegar uppbyggingu skrifstofunets HS Orku. Ítarleg greining var undirbúin fyrir báða þættina, vinna hófst árið 2015 og var áframhaldið á árinu 2016. Stofnuð var UT-deild en áður var þjónusta í upplýsingatæknimálum keypt af HS Veitum. Sigurður Markús Grétarsson var ráðinn til að vera deildarstjóri. Hann hóf  störf í mars 2016 og þegar líða fór nær flutningum var Brynjar S. Jónsson jafnframt ráðinn í deildina og með tilkomu hans og ásamt Gísla Ólafssyni sem fyrst og fremst sinnir stjórnbúnaði orkuveranna erum við komin með tölvudeild. Flutningur tölvukerfanna gekk eins og í sögu og tækifærið var nýtt til að taka í notkun ýmsar nýjungar sem reynst hafa vel.

Eftirlits- og áhættustjórnunarkefi

Við flutninginn hætti fyrirtækið jafnframt að kaupa þjónustu á sviði innkaupa af Veitunum en dreifa þess í stað þeim verkefnum á starfsmenn á fjármálasviði, á lagerstjóra í Svartsengi og á nýja stöðu lögfræðings sem tók við stærri útboðsverkum. Matthías Friðriksson sem hefur gegnt stöðu deildarstjóra reikningshalds tók við stöðu innkaupastjóra og bætt var við starfsmanni á lager. Má segja að þessi breyting hafi heppnast vel og almenn ánægja sé með hið nýja fyrirkomulag.

HS Orka hefur notað eftirlits- og áhættustjórnunarkerfi sem innleitt var með hliðsjón af Sarbanes-Oxley lögunum (SOX) á árinu 2011 til innra eftirlits. Til að tryggja gæði þessa starfs var gerður samningur árið 2014 við endurskoðunarfyrirtækið ENOR um prófanir og eftirlit með þessum verkferlum. ENOR gefur endurskoðunarnefnd fyrirtækisins skýrslu árlega um sínar niðurstöður. Niðurstöður fyrir árið 2016 voru góðar og engin meiriháttar frávik komu í ljós.

Rannsóknarstyrkur vegna IDDP

HS Orku hefur verið veitt hlutdeild í rannsóknarstyrk til þátttöku í djúpborunarverkefni sem felur í sér borun djúprar holu á virkjanasvæði HS Orku á Reykjanesi. Þetta er hluti hins íslenska djúpborunarverkefnis (IDDP). DEEPEGS-verkefnið er fjögurra ára verkefni undir stjórn HS Orku, í samvinnu við samstarfsaðila frá Íslandi, Frakklandi, Þýskalandi og Noregi. Kallar stjórnun þessa verkefnis á töluvert utanumhald og fjármálaþjónustu. Til að geta sinnt þessu var auglýst eftir verkefnastjóra til að halda utan um fjármálahlið verkefnisins. Kristján Sigurðsson gekk til liðs við okkur á árinu, fyrst og fremst til þess að sinna þessu verkefni, en mun auk þess sinna tilfallandi verkefnum á fjármálasviði.

Árið 2016 hefur því einkennst af breytingum sem að okkar mati hafa allar verið til góðs. Það hafa orðið breytingar á hlutverkum margra og vegna þess að okkur hefur fækkað verður fólk að taka að sér aukna ábyrgð. Það hefur gengið vel. Fólk gerir sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem því fylgir og er duglegt við að hjálpast að við að leysa þau viðfangsefni sem liggja fyrir hverju sinni. Ábyrgð hvers og eins hefur aukist og ekki verður annað séð en að það veki almenna ánægju. Starfsfólkið er mjög ánægt með þær breytingar sem gerðar hafa verið og horfir með tilhlökkun til framtíðarinnar. 

 

Nýjar höfuðstöðvar HS Orku í Svartsengi

Stjórn og skipulag

Aðalfundur HS Orku hf. var haldinn 11. mars að Breggustíg í Reykjanesbæ. Stjórn var öll endurkjörin og var þannig skipuð: 

Stjórn HS Orku

Ross Beaty

Formaður

Ross Beaty
John Carson

Varaformaður

John Carson
Gylfi Árnason

Ritari

Gylfi Árnason
Anna Skúladottir

Meðstjórnandi

Anna Skúladóttir
Lynda Freeman

Meðstjórnandi

Lynda Freeman

Varamaður í stjórn

Lindsay Murray

Varamaður í stjórn

Garðar Gíslason
Ásgeir Margeirsson

Forstjóri

Ásgeir Margeirsson
Skipting hlutafjár
  Hlutir Hlutfall
Magma Energy Sweden A.B. 5.222.188.911 66.6%
Jarðvarmi slhf. 2.618.935.580 33.4%

Gildi HS Orku eru: Heiðarleiki - Framsýni - Metnaður

vatn

Auðlindagarðurinn

Samfélag án sóunar

Kenniorð Auðlindagarðsins er „Samfélag án sóunar“, að nýta beri alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fullnustu, á sem ábyrgastan hátt, samfélaginu til framþróunar og heilla. Með Auðlindagarðinum vill HS Orka vekja fólk til umhugsunar um þær verðmætu auðlindir sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir og því falið að tryggja að endist kynslóð fram af kynslóð. Hjá HS Orku eru nýttir sjö auðlindastraumar sem falla til við framleiðslu rafmagns og heits vatns. Auðlindin er dýrmæt og því mikilvægt að nýta hana af ábyrgð, alúð og skynsemi og sóa engu. Fjölnýting auðlinda styður við ábyrga nýtingu þeirra og stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins.  

Hátæknisprotafyrirtæki í Auðlindagarðinum

Níu fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum mynda Auðlindagarðinn, fyrirtæki sem nýta með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmavinnslu HS Orku á Reykjanesskaga. Fyrirtæki Auðlindagarðsins eru ólík en það er þó margt sem sameinar þau. Þau hófu flest starfsemi sína sem hátæknisprotafyrirtæki og starfsemi þeirra byggist á öflugu þróunarstarfi og vísindum. Hvert um sig nýta þau með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku og verða því að vera staðsett á Suðurnesjum í grennd við jarðvarmaverin.

Starfsemi Auðlindagarðsins byggist upp á sameiginlegum hagsmunum fyrirtækjanna, þ.e. affall eins er hráefni fyrir annað, nálægðinni og nánu þverfaglegu samstarfi. Virkjun jarðhita á Suðurnesjum leggur því til hráefni í fjölþætta framleiðslu. Starfsemi Auðlindagarðsins einkennist af rannsóknum, þróun og nýsköpun og er öflugt verkfæri sem stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagins. Hluti af starfsemi Auðlindagarðsins er að fylgjast með og skapa vettvang fyrir vísindi og tækniþróun svo að nýta megi betur auðlindastraumana og skapa þannig vettvang fyrir samvinnu fyrirtækja í ólíkum greinum og með ólíkan bakgrunn. Auðlindagarðurinn er því öflugt og ört stækkandi frumkvöðlasetur.

Eina frumkvöðlaþyrpingin í kringum jarðvarma

Auðlindagarðurinn er eina frumkvöðlaþyrpingin sem vitað er til að byggst hafi upp í kringum jarðvarma. Samstarfið sem skapast hefur milli starfsmanna HS Orku og fyrirtækjanna innan garðsins er einstakt og undirstrikar sérstöðu íslenskrar jarðvarmavinnslu. Jákvæð áhrif þessarar þyrpingar má sjá víða í samfélaginu eins og efnahagsgreining GAMMA hefur leitt í ljós. Þar ber hæst að árið 2016 voru tæplega 900 heils árs stöðugildi í Auðlindagarðinum og er rétt að geta þess í samhengi að starfsmenn HS Orku eru 60. Efnahagsleg áhrif Auðlindagarðsins eru því mikil á svæðinu. Flest fyrirtæki innan Auðlindagarðsins eiga það sameiginlegt að selja afurðir með einum eða öðrum hætti til erlendra aðila og því telst meirihluti tekna Auðlindagarðsins til gjaldeyristekna. Laun hjá fyrirtækjum Auðlindagarðsins eru að jafnaði 25% hærri en annars staðar á Suðurnesjunum sem líklega má rekja til framleiðni fyrirtækja Auðlindagarðsins.

„Fullnýting auðlinda lýsir einfaldlega heilbrigðri skynsemi“

Albert Albertsson, hugmyndasmiður HS Orku

Auðlindastraumarnir eru ekki fullnýttir

Fyrirtækin í Auðlindagarðinum hafa á síðustu árum gegnt stóru hlutverki í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjunum og skapast hefur fjöldi vel launaðra starfa fyrir fólk með fjölbreytta menntun. Þá sækja fyrirtækin mikla þjónustu til sveitarfélaga á Suðurnesjum og afleidd störf tengd starfseminni eru áætluð á annað þúsund. Fjölþætt nýting auðlinda stuðlar því beint að uppbyggingu og þróun samfélagsins. 

Frá vinnslu HS Orku eru enn ónýtt tækifæri og er sífellt verið að skoða nýjar leiðir sem stuðla að bættri nýtingu auðlindanna og styrkja um leið Auðlindagarðinn. Um þessar mundir er verið er að ljúka við byggingu gashreinsistöðvar í Svartsengi sem hreinsar brennisteinsvetni úr gasstraumi orkuversins svo eftir stendur hreinn koltvísýringur. Matorka vinnur að því að koma á fót fiskeldi við Grindavík sem kemur til með að nýta varma úr affallslögn HS Orku frá Svartsengi og nýlega tilkynnti Codland um uppbyggingu framleiðslu sinnar í Heilsuvöruhúsi á Reykjanesi. Þá standa stöðugt yfir rannsóknir á efnainnihaldi jarðsjávarins og útfellinga frá jarðhitavinnslunni en þar leynast ýmis verðmæt steinefni og málmar. Frumefni og efnasambönd sem markaðurinn þarf og getur skapað nýjar afurðir frá jarðhitavinnslunni og þannig ýtt enn frekar undir fullnýtingu auðlinda. 

HS Orka vinnur markvisst að því að því að fá ný, sérhæfð fyrirtæki í garðinn sem geta nýtt þá auðlindastrauma sem í boði eru. Fleiri fjölbreytt og sérhæfð fyrirtæki sem grundvalla starfsemi sína á rannsóknum og þróun styrkja Auðlindagarðinn og þá hugsun sem starfsemi hans byggist á. Með aukinni tækni, vinnslunýtni og fjölgun fyrirtækja mun Auðlindagarðurinn vaxa og eflast á næstu árum, Suðurnesjum og landinu öllu til hagsbóta. Starfsmenn HS Orku eru undir sterkum áhrifum frá Alberti Albertssyni hugmyndasmiði HS Orku sem hefur ætíð lagt áherslu á ábyrga framleiðslu og vinnslu og hvatt starfsmenn til að lifa og starfa í náttúrunni en ekki á henni. Samkvæmt hugmyndafræði Alberts er hugmyndaflug eini takmarkandi þátturinn í framþróun. Auðlindagarðurinn er afsprengi þessa hugsunarháttar.

HS Orka mun halda ótrauð áfram að rækta Auðlindagarðinn sinn á skynsaman og ábyrgan hátt, samfélaginu til heilla.  

Orkuver.jpg

Orkuver

Auðlindir

HS Orka á og rekur tvær jarðhitavirkjarnir á Suðurnesjum, Reykjanesvirkjun og Svartsengi. Auk jarðhitanýtingar nýtir HS Orka ferskvatnsauðlindina í Lágum til vinnslu á ferskvatni fyrir nágrannasveitarfélög og til framleiðslu á heitu vatni til húshitunar. Það er markmið HS Orku að nýta þær auðlindir sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir á sjálfbæran hátt, hámarka nýtingu jarðhitavökvans sem unnið er úr jarðhitakerfunum, t.d. með nýtingu auðlindastrauma, og tryggja viðunandi niðurdælingu. 

Til að fylgjast með ástandi auðlinda er magn vökva sem tekinn er upp og dælt niður skráður. Hér að neðan eru helstu kennitölur frá síðastliðnu rekstrarári.

 

Jarðhitavinnsla og niðurdæling 2016
Upptekt Niðurdæling Nettó upptekt
Svartsengi 13 milljón tonn 10,5 milljón tonn 2,5 milljón tonn
Reykjanes 14 milljón tonn 4,5 milljón tonn 8,5 milljón tonn

 

Raforkuframleiðsla árið 2016
Raforkuframleiðsla
Reykjanes 630 GWh
Svartsengi 560 GWh

 

Svartsengi
Vatn
Heitt vatn 13.800.000 m3
Kalt vatn 6.600.000 m3


Rekstur og viðhald virkjana 

Reykjanesvirkjun

Reykjanesvirkjun

Rekstur Reykjanesvirkjunar gekk vel á árinu. Framkvæmd voru nokkur viðgerðarstopp aðallega vegna viðgerða á gufuveitukerfum.  Vél 1 fór í skipulagða fimm ára upptekt í júní mánuði sem gekk vel í alla staði. Stórar upptektir sem þessi hafa eðlilega mikil áhrif á árs framleiðslumagn véla þegar þær eru framkvæmdar en eru nauðsynlegar til að tryggja líftíma þeirra. Vél tvö fór í reglubundið árlegt viðhald í lok ágúst.  

Viðgerðarstopp á síðasta ári leiddi til minnkunar á framleiðslu á Reykjanesi. Farið var í aðgerðir til að vinna á móti minnkuninni og tryggja stöðugleika kerfisins. Þessar aðgerðir báru góðan árangur og í lok árs var komið jafnvægi í framleiðsluna. Verið er að skoða leiðir til þess að auka framleiðsluna á ný.

Gufuframleiðsla á Reykjanesi dróst aðeins saman í kjölfar viðhaldsstopps síðasta sumar, fyrirtækið hefur farið í nokkrar mótvægisaðgerðir til að draga úr henni og koma á stöðugleika á svæðinu. Aðgerðirnar skiluðu jákvæðri niðurstöðu og jókst jafnvægið á svæðinu á fjórða ársfjórðungi. Fyrirtækið hefur kannað möguleikann á bættri nýtingu með því að breyta gufulögnum. Áætlað var að hægt væri að auka framleiðslu um 2-4 MW frá gufunni ef nýtt gassogskerfi væri keypt og er vinna hafin.

 Farið verður í frekari aðgerðir á árinu þar á meðal nýjar holur og  m.a. upplýsinga frá djúpborunarverkefninu. Mögulegt er að djúpborunarholan sem var boruð á árinu auki framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar um 30-50 MW en gera þarf frekari rannsóknir og prófanir og er niðurstöðu að vænta seint á árinu 2018.

Niðurdæling var aukin umtalsvert á svæðinu með nýjum niðurdælingar holum.

Svartsengi

Svartsengi

Rekstur Svartsengisvirkjunar gekk afar vel á árinu.  Tiltæki véla var mjög hátt og þau viðhaldsstopp sem farið var í gengu vel fyrir sig. Lokið var við endurnýjun stýrisvéla Ormat véla HS Orku og rekstrar- og gangöryggi þeirra aukið til muna. Verkefnið var unnið í góðu samráði við fulltrúa frá framleiðendum vélanna.

Raforkuframleiðsla í Svartsengi jókst nokkuð á árinu og var nýtingarleyfi fullnýtt. Svæðið stóð vel undir aukinni framleiðslugetu.

Lokið var við borun tveggja nýrra vinnsluhola á árinu. Sú fyrri, hola 25 var boruð syðst á svæðinu og var tengd við virkjunina á þriðja ársfjórðungi 2016. Holan sér virkjuninni núna fyrir um 3 til 4 MW af gufu til framleiðslu. Seinni vinnsluholan, hola 26 var boruð á austasta hluta svæðisins og er í prófun. Búist er við að hægt verði að tengja hana við virkjunina á árinu 2017 og að framleiðslugeta verði áþekk holu 25. Báðar holurnar eru utan við vinnslusvæðið sem unnið hefur verið með síðustu 40 ár.

Heitavatnsframleiðsla

Með tilkomu nýs varmaframleiðsluturns í lok ársins 2015 jókst framleiðslugetan umtalsvert og gafst tækifæri að taka eldri varmaframleiðsluturna til viðhalds og skoðunar. Smíði og uppsetningu nýrrar dælustöðvar fyrir Grindavík lauk á árinu og var hún gangsett á haustmánuðum. Með tilkomu stöðvarinnar hefur flutningsgeta að forðageymi Grindavíkur aukist verulega.

Hafist var handa við endurnýjun dælustöðvar fyrir þéttivatnssöfnun og  inndælingar í niðurdælingarveitu..

Kaldavatnsframleiðsla

Endurnýjun tveggja kaldavatnsdæla lauk á árinu og hafa nú allar dælur verið endurnýjaðar yfir í nýrri  dælur með betri nýtni og aukin afköst.  

Endurnýjun lagna í dæluhús aðveitu að Grindavík lauk á árinu og stærri dæla sett í stað tveggja áður. 

Önnur verkefni

Veruleg styrking var framkvæmd í svæðisdreifingu að þremur dælustöðvum í Svartsengi með útskiptingu spenna og ný dreifistöð var tekin í notkun.  

Mikil áhersla er lögð á að virkjanir fyrirtækisins og umhverfi þeirra sé eins og best verður á kosið og var mikið unnið í snyrtingu útisvæðis við Svartsengi og málun virkjunarinnar. 

Aðveitulögn að Bláa Lóninu var endurnýjuð og stækkuð.


Gildi HS Orku eru heiðarleiki, metnaður og framsýni

Raforkukaup og raforkusala

Aukin eftirspurn á heildsölumarkaði 

Tekjur af raforkusölu í smásölu jukust um 5,8% frá fyrra ári þrátt fyrir mun minni notkun fiskimjölsverksmiðja en árið á undan. Eftirspurn eftir raforku heldur áfram að aukast frá stórnotendum og raforkunotkun á almennum markaði eykst jafnt og þétt. 

Mikilvægt er að leita leiða til að auka framleiðslu til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku. Gerður var samningur við tvær litlar vatnsaflsvirkjanir á árinu, Svelgsárvirkjun í Helgafellssveit og Gönguskarðsvirkjun í Skagafirði. Gert er ráð fyrir að fleiri samningar við minni framleiðendur verði gerðir á árinu 2017. Áfram var unnið að undirbúningi stærri virkjanakosta í bæði vatnsafli og jarðvarma..

HS Orka kaupir rafmagn frá nokkrum vatnsaflsvirkjunum og var framleiðsla þeirra nokkuð góð á árinu. Vatnsstaða Landsvirkjunar var einnig góð á árinu sem er mikilvægt þar sem hluti þeirrar raforku sem HS Orka selur á smásölumarkaði er keyptur í heildsölu. 

Síðasta ár heildsölusamnings við Landsvirkjun

Árið var síðasta ár heildsölusamnings HS Orku og Landsvirkjunar sem gerður var árið 2005 þegar breytingar voru gerðar á raforkumarkaði og opnað fyrir samkeppni. Landsvirkjun hefur boðað nýtt fyrirkomulag heildsöluviðskipta sem mun leiða af sér hækkun á verði umfram verðlagshækkanir næstu ár. Þetta mun sérstaklega hafa áhrif á kaup á breytilegri orku en Landsvirkjun er nánast einráð á þeim markaði þar sem hún hefur yfir að ráða öllum stærstu vatnsaflsvirkjunum landsins. HS Orka leggur áherslu á það á næstu árum að horfa til virkjanakosta með möguleika á stýranlegri framleiðslu til að mæta þessu

Olía í fiskimjölsverksmiðjum

Fiskimjölsverksmiðjur sem allflestar hafa verið rafvæddar á síðustu árum nýttu lágt olíuverð í byrjun árs og keyrðu á olíu í stað rafmagns. Það og lítill loðnukvóti leiddi til þess að raforkusala til þessara fyrirtækja minnkaði umtalsvert á milli ára. 

Gagnaversiðnaður heldur áfram að vaxa

Gagnaversiðnaður á Íslandi heldur áfram að vaxa. Langstærstu aðilarnir eru sem fyrr Advania og Verne Global en nokkur ný gagnaver hófu rekstur og komu í viðskipti við HS Orku á árinu. Samkeppnin frá öðrum löndum í Evrópu um staðsetningar gagnavera er mikil og ákveðin landsvæði í Skandinavíu njóta til dæmis góðs af skilningi stjórnvalda sem leggja mikið kapp á að greiða götu þessa iðnaðar. Á Íslandi er enn margt sem færa má til betri vegar þegar kemur að samkeppnisumhverfinu. Jöfnunargjald sem lagt var á dreifiveitukostnað af hálfu ríkisins til að koma til móts við íbúa á köldum svæðum leggst til dæmis á minni gagnaver og skekkir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart stærri aðilum sem ekki eru tengdir dreifiveitu og þurfa því ekki að greiða jöfnunargjald. 

Sala til Carbon Recycling International jókst á milli ára og útlit er fyrir að framleiðsla hjá þeim sé að komast í gott horf auk þess sem horfur á heimsmarkaði eru jákvæðar. 

Sala til Norðuráls minnkaði

Sala til Norðuráls minnkaði nokkuð vegna skerðinga sem gripið var til á árinu til að mæta minnkandi framleiðslu á Reykjanesi. Í samræmi við áætlanir ársins var álverð áfram lágt og krónan styrktist umtalsvert. Hlutfall álframleiðslu í raforkusölu HS Orku minnkar bæði í magni og tekjum. Norðurál er þó enn sem fyrr langstærsti viðskiptavinur HS Orku. Niðurstaða gerðardóms sem komst að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningur HS Orku og Norðuráls Helguvíkur væri ekki í gildi mun hafa jákvæð áhrif á verkefni tengdum orkuöflun á Reykjanesi. 

 

Orkuöflun og orkusala
2016 GWh 2015 GWh Breyting%
Heildarframleiðsla eigin virkjana 1.189,4 1.293,6 -8,1
Eigin notkun virkjana -66,3 -64.9 2,2
Orkukaup frá öðrum 490,2 437,4 12,2
Sala á almennum markaði 820,0 871,6 -5,9
Sala til álvera 722,4 739,4 -2,3
Önnur raforkusala 70,9 55,3 28,2

Glaðir starfsmenn á góðri stundu

Þróunar­verkefni

Góð fyrirheit

Brúarvirkjun
Undirbúningsvinna að Brúarvirkjun stóð yfir allt árið. Unnið var úr mælingum á rennsli frá okkar eigin mælum og mælum Veðurstofunnar til að fínstilla rennslislykil árinnar og endurskoða hönnunarforsendur mannvirkja, þ.á m. aðrennslispípu, en mannvirkjagerð er nánast öll austan megin árinnar. Gefin var út frumhönnunarskýrsla ásamt endurskoðaðri kostnaðaráætlun. Hagkvæmni var metin og gefur hún góð fyrirheit. Unnið var að undirbúningi útboða og verkhönnunar í lok ársins.

Bætt framkvæmd

Mat á umhverfisáhrifum stóð yfir á árinu, frummatsskýrsla var kynnt og umsögnum svarað og/eða brugðist við með lagfæringum eða endurskoðun á hönnun. Farin var vettvangsferð með fagstofnanir með aðstoð landeiganda til að kynna vel allar aðstæður á rannsóknarsvæðinu. Athugað var sérstaklega með að færa mannvirki vestur fyrir árfarveginn en sú tilhögun reyndist hafa mun neikvæðari áhrif á umhverfi en upprunaleg tilhögun og verður ekki skoðuð frekar. Allt miðar að því að bæta framkvæmdina. Skipulagsstofnun gaf út álit sitt og mat framkvæmdina ásættanlega en setti henni skilyrði varðandi endurheimt votlendis, gróðursetningu birkikjarrs og nánari athugun á því hvort straumönd verpi á svæðinu. Var strax hafist handa við að ná samkomulagi við viðkomandi fagaðila um þessi atriði sem öll þurfa að vera uppfyllt á framkvæmdatíma.

 Hafin var vinna við að greina áhættuþætti og meta hentugt stjórnskipulag verkefnisins en þar þarf m.a. að hafa í huga að framkvæmdin er fjarri aðalstöðvum fyrirtækisins, umtalsverðir efnisflutningar munu eiga sér stað frá hafnarsvæði til framkvæmdasvæðis og farið er um land í byggð í flutningum og framkvæmd.  

Samhliða mati á umhverfisáhrifum var unnið að skipulagsáætlunum sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmda. Einnig var unnið sérstakt deiliskipulag fyrir mannvirki virkjunarinnar, stöðvarhús, stíflu og veg og gerð breyting á deiliskipulagi vegna efnistöku og haugsetningar. Voru allar þessar áætlanir á lokastigi við árslok.

 

Samkomulag við RARIK

Tengimöguleikar voru skoðaðir sérstaklega, annars vegar kom til greina að tengja virkjunina við flutningskerfi Landsnets og hins vegar við dreifikerfi Rarik á svæðinu. Var niðurstaðan sú að gera samkomulag við Rarik um að virkjunin tengdist tengivirki dreifiveitunnar í Reykholti með 33 kV kapallögn sem verður hluti af dreifikerfi Rarik á svæðinu. Afhendingarstaður raforku frá Brúarvirkjun verður við stöðvarvegg.

 

Starfsfólk HS Orku hefur víðtæka reynslu.

Bætt heildarnýting

REY 4, lágþrýstihverfill og bætt nýting Reykjanesvirkjunar
Undirbúningur 30 MW lágþrýstivirkjunar stóð yfir megnið af árinu. Lágþrýstihverfillinn nýtir jarðhitavökva sem fylgir gufunýtingu núverandi 100 MW virkjunar og bætir þar með heildarnýtni jarðhitavökva Reykjanesvirkjunar. 

Lítil umhverfisáhrif

Unnið var að skipulagsmálum og skoðun á samræmi við matsskýrslu frá árinu 2009. Í kjölfarið var lögð til breyting á deiliskipulagi og send inn matsskyldufyrirspurn þar sem vikið var frá fyrri áformum og heimildum. Skipulagsstofnun ályktaði að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa og ákvað að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Nýtt deiliskipulag var síðan samþykkt af Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ sem og útgáfa framkvæmdaleyfis.

Samvinna við Fuji Electric

Hönnunarvinna gufuhverfils var unnin í náinni samvinnu við Fuji Electric (FE) og telst hverfillinn skilgreindur að fullu og tilbúinn til framleiðslu. Til að flýta fyrir innkaupaferlinu var tilkynnt á Evrópska efnahagssvæðinu um væntanlega samvinnu okkar og FE um hverfilinn og hugsanleg kaup. Var það gert til öryggis ef telja mætti að fyrirtækið heyrði undir veitutilskipun ES. Það er ennþá í lögfræðilegri skoðun hvort svo geti verið.

 Gert var ráð fyrir að nota rafal úr gufuhverfilssamstæðu sem ætluð var virkjunaráfanga REY-3 og miðað við gott ásigkomulag mun hann henta fyrir REY-4. Vegna minnkunar á framleiðslunni á Reykjanesi á árinu, mun áframahaldandi vinna við REY-4 vera háð því hvernig gengur að ná jafnvægi á svæðinu ásamt niðurstöðum úr djúpborunarverkefninu.


Takmörkuð umhverfisáhrif

Orkuver Svartsengi, nýtingar- og virkjunarleyfi
Eftir borun nýrrar holu frá borteig holu 11, holu 25, var sótt um breytingu á virkjunarleyfi þar sem einnig var gert ráð fyrir borun annarrar holu á árinu, holu 26. Eftir skoðun Orkustofnunar taldi stofnunin óumflýjanlegt að verkefnið heyrði undir reglur um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem það snerist um viðbótarvirkjun sem svaraði til 5 – 6 MW. Var fyrirspurn um matsskyldu útbúin og send inn til Skipulagsstofnunar til athugunar og ákvörðunar. Eftir umsagnarferli ákvað stofnunin að verkefnið þyrfti ekki að fara í fullt mat á umhverfisáhrifum þar sem áhrif á umhverfi væru takmörkuð. Var framkvæmdaleyfis aflað fyrir tengingu holu 25 og holu 26. 

Á grundvelli niðurstöðu Skipulagsstofnunar og athugunar Orkustofnunar var ákveðið að sækja um nýtt nýtingarleyfi fyrir jarðhitasvæðið í Svartsengi- Eldvörpum og breytingu á virkjunarleyfi fyrir virkjunina við Svartsengi. Voru til grundvallar lagðar fram líkanútreikningar Vatnsskila yfir vinnslu og niðurdælingu næstu þrjátíu ár og áhrif metin á niðurdrátt í Svartsengi og Eldvörpum. Er gert ráð fyrir að ferli umsóknar ljúki á fyrri hluta 2017.

Rannsóknir og nýting auðlinda

Stóra-Sandvík 
Stóra-Sandvík er skilgreind í nýtingarflokki rammaáætlunar. Samið var við landeigendur að Stóru- Sandvík, í landi Kalmannstjarnar og Junkaragerðis, um heimildir til rannsókna og nýtingar auðlinda í afmörkuðum hluta lands þeirra. Áður hafði rannsóknarleyfis verið aflað. Í kjölfar samningsins var gert samkomulag við Ísor m.a. um að meta fyrirliggjandi upplýsingar frá fyrri rannsóknum og bæta við sértækum rannsóknum með það að markmiði að afmarka svæði sem líklegt teldist til árangurs fyrir gufuvinnslu. Samhliða athugun Ísor var einnig hafist handa við að skilgreina svæði fyrir granna könnunarholu. Gert er ráð fyrir niðurstöðum 2017.

Landeigendur veittu sérstaka heimild til uppsetningar jarðskjálftamæla á tilteknum svæðum á landi þeirra en niðurstöður mælinga koma til með að gagnast rannsóknarvinnu á svæðinu.

 Eldborg - höfuðstöðvar HS Orku í Svartsengi.

Eldvörp
Þróunarsvið lét skoða samspil orkuvinnslunnar í Svartsengi og hugsanlegrar gufuvinnslu frá Eldvarpasvæðinu til þess að geta metið heppilega áfangaskiptingu í nýtingu svæðisins. Vandað verður vel til nýtingar jarðhita í Eldvörpum og fylgjast vel með þróun vinnslunnar í Svartsengi – sérstaklega gufupúðans. Þá var einnig skoðuð sérstaklega breytt forgangsröðun í fyrirhugðum rannsóknarborunum sem nýtist þegar kemur að borun fyrstu rannsóknarholunnar.

Þar sem ekki kom til framkvæmda árið 2016, var sótt um framlengingu á framkvæmdarleyfi og gildir það til október 2017. Farin var vettvangsferð með fulltrúum Landverndar og áform kynnt fyrir þeim. Einnig var verkefnið kynnt stjórn Reykjaness Geopark.

Virkni í útfellingum

Útfellingar í gufuveitu Reykjanesvirkjunar
Eftir að í ljós kom að virkni fyrirfannst í útfellingum í tilteknum gufulögnum Reykjanesvirkjunar var málið skoðað af Skipulagsstofnun og var það niðurstaða stofnunarinnar að meðferð og förgun útfellinganna væri háð mati á umhverfisáhrifum. Hafist var handa að útbúa matslýsingu sem fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru til framkvæmdarlýsingar og mats á áhrifum framkvæmdar á umhverfi. Verkefnið er talsvert að umfangi enda um að ræða nýmæli við rekstur jarðhitavirkjana á Íslandi. Var matsáætlun tilbúin sem drög í lok árs 2016 og hefst því ferill sem opinn er almenningi á næsta ári.

Sjávarlögn - lokahús

Framkvæmdaleyfi var framlengt á árinu og byggingarleyfis fyrir lokahús var aflað. Það var síðasti áfangi framkvæmdar við fráveitulögn frá orkuveri í Svartsengi til sjávar sem lauk á árinu undir handleiðslu tækniþjónustusviðs. Við framkvæmdir var sérstakt umhverfiseftirlit viðhaft ásamt verkeftirliti til að tryggja að allar áherslur í framkvæmdaleyfinu skiluðu sér í verkframkvæmd.

HS Orka gerir ráð fyrir að  hin aukna flutningsgeta lagnarinnar muni auðvelda aukna framleiðslu frá Svartsengi og auðvelda frekari þróun frá sameiginlegu svæði Svartsengis og Eldvarpa.

Vindorka
Unnið var áfram í samvinnu við sveitarfélög á Reykjanesskaganum að heppilegri staðsetningu til frekari rannsókna á vindorku. Sóst var eftir því að mörkuð yrði stefna í vindorkumálum hjá sveitarfélögum. Einnig var sótt frekari þekking til ráðgjafaaum og framleiðenda hérlendis og erlendis. Áfram verður unnið að því að fá leyfi á Reykjanesi til að hefja mælingar á vindstyrk úr um 80 m háu mælingamastri.

IDDP

IDDP - djúpborunarverkefnið
Vegna IDDP-djúpborunarverkefnis var skoðað hvort verkefnið stangaðist á við skipulag og umhverfismat virkjunar en borað var frá núverandi borteig fyrir holu nr. 15. Reyndist svo ekki vera og sama gilti um borun ferskvatnshola og öflun kælivatns á vinnslusvæði ferskvatns við Sýrfell.

Krýsuvík
Unnin var ný rannsóknaráætlun og sótt um endurnýjun rannsóknarleyfis. Var nýtt rannsóknarleyfi veitt til þriggja ára.

Matsskýrslu frestað

Suðurorka ehf. - Búlandsvirkjun
Unnið var við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og greiningu á mótvægisaðgerðum eftir umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrsla var á lokastigum þegar drög að rammaáætlun 3 var kynnt þar sem verkefninu hafði verið raðað í verndarflokk. Var allri frekari vinnu við matsskýrslu frestað þar til ljóst verður með endanlega röðun. Var gerð formleg athugasemd við röðun verkefnisstjórnar með andmælabréfi.

Matsskýrsla hjá Skipulagsstofnun

Vesturverk ehf. - Hvalá og fleiri smærri virkjanir
Á vegum VesturVerks var unnið að mati á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar, umsögnum svarað eftir kynningar og ferill fyrir breytingu á aðalskipulagi hófst. Matsskýrsla er nú til ákvörðunar hjá Skipulagsstofnun.

Mælt var lágrennsli á Ófeigsfjarðarheiði á alls níu stöðum að vori bæði vegna Hvalárvirkjunar og Skúfnavatnavirkjunar. Notuð var til verksins 15 tonna beltavél og þrír vélsleðar enda aðstæður erfiðar með snjódýpt frá 2 m upp í rúma 10 m. Einnig var farið í mælingaferðir í júlí og september. Þá fóru einnig á Ófeigsfjarðarheiði verkfræðingar Verkís í ágúst með það að markmiði að finna jökulruðning til stíflugerðar fyrir Hvalárvirkjun og skoða aðstæður við stíflustæði. 

Rannsóknarleyfa var aflað fyrir Hest- og Skötufjarðarvirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun og voru rennslismælar settir upp á Glámuhálendinu í kjölfarið. Áætlanir gera ráð fyrir að Hvanneyrardalsvirkjun geti skilað 14-16 MW rafafls og Hest- og Skötufjarðarvirkjun 16-20 MW. Báðar virkjanir falla undir rammaáætlun og þarf því frumhönnun að liggja fyrir þegar tilkynna þarf inn valkosti í rammaáætlun 4. Vinna hófst við gerð landeigendasamninga og athugun á réttindum aðila sem eiga í hlut.


Starfsfólk HS Orku að störfum

Framkvæmdir

Rík áhersla á öryggi

Haldið var áfram umfangsmiklum framkvæmdum á árinu 2016. Lokið var stefnuborun 2.500 m djúprar rannsóknarholu í Svartsengi, holu SV 26, en markmiðið með borun holunnar er að kanna stærð jarðhitakerfisins til austurs á núverandi svæði. Holan verður blástursprófuð nú á vormánuðum.

Hola SV 25 í Svartsengi sem var boruð á árinu 2015 var tengd orkuveri og gefur hún um 4 MW.

Lokið var við niðurdælingarlögn á Reykjanesi, frá vinnslusvæði að norðurenda Sýrfells, þar sem boraðar hafa verið tvær niðurdælingarholur RN 33 og 34. Nýja niðurdælingarlögnin getur flutt um 300 kg/s af niðurdælingarvökva.

Eins og fram hefur komð var unnið að tilraunum með vinnslu jarðhitasjávar fyrir lágþrýstivél á Reykjanesi sem og skíringu á þeim sjó fyrir niðurdælingu. Þá voru gerðar tilraunir á framleiðslu á heitu vatni í varmaskiptum á móti lágþrýstri gufu.

Lokið var við niðurdælingar- og förgunarverkefni fyrir jarðhitavökva í Svartsengi sem staðið hefur í nokkur ár. Síðasti áfanginn, lögn frá niðurdælingarsvæði til sjávar í Arfadalsvík vestan Grindavíkur, var tekinn í gagnið á haustmánuðum. Þar með er ekki lengur þörf á förgun jarðhitavökva á breiðunni austan orkuversins í Svartsengi nema í neyðartilfellum.

Lögð var ný jarðsjávarlögn frá Orkuverinu í Svartsengi að Bláa Lóninu en gamla lögnin var orðin tærð. Nýja lögnin liggur ofanjarðar, er einangruð og klædd litaðri álkápu og getur flutt jarðsjó sem dugar rekstri Bláa Lónsins til langrar framtíðar.

 

Djúpborunarverkefnið á Reykjaneis hefur gengið framar vonum.

Djúpborunarverkefnið 

Eitt stærsta verkefni ársins 2016 var íslenska djúpborunarverkefnið IDDP 2/Deepegs á Reykjanesi sem er rannsóknar- og tilraunaverkefni í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Orkustofnun og Statoil. Allmargir til viðbótar koma að verkefninu og hefur Evrópusambandið veitt stóran styrk til verkefnisins. HS Orka leiðir djúpborunarverkefnið og voru Jarðboranir borverktaki og notaður stærsti bor landsins, jarðborinn Þór, sem knúinn var með rafmagni beint frá Reykjanesvirkjun.

Borað á 3.000 metra dýpi

Tilgangur verkefnisins er að kanna hvað er undir vinnslusvæðinu á Reykjanesi. Vinnslusvæðið er á 1.500-2.500 metra dýpi og hefur ekki áður verið kannað hvað er neðan 3 km. HS Orka lagði eina vinnsluholu til verkefnisins sem var 2.500 metra djúp (RN-15). Holan var dýpkuð niður í þrjú þúsund metra og fóðruð með því að setja niður stálrör sem steypt var fast. Svo djúpri fóðringu hefur aldrei áður verið komið fyrir í borholu á Íslandi.

Stefnuborað á 4.650 metra dýpi

Stefnuborað var niður á 4.650 metra dýpi sem gerir holuna þá dýpstu á landinu en borun hófst í ágúst sl. og lauk nú í janúar. Borun holunnar fylgdu margar og tæknilega flóknar áskoranir, en borun verður flóknari og erfiðari eftir því sem neðar dregur. Ýmsar óvæntar uppákomur voru við framkvæmd verksins og nokkrum sinnum í verkinu festist borinn. Þekking og reynsla HS Orku og Jarðborana var nýtt til hins ýtrasta og jafnan tókst vel að leysa og vinna úr öðrum vandamálum sem upp komu. Eitt af því sem reyndist vandasamt var að ná borkjörnum (bergi) en þegar upp var staðið höfðu náðst 23 metrar í 13 tilraunum og sá síðasti var tekinn við botn holunnar.

Öll markmið náðust

Öll markmið verkefnisins náðust en þau voru auk borunarinnar sjálfrar að ná borkjörnum, mæla háan hita og finna lekt berg. Hitinn á botni holunnar hefur mælst 427° gráður eftir skamma upphitun holunnar og þrýstingur 340 bar. Það er því ljóst að við botn holunnar hefur vökvinn náð yfirhituðu ástandi sem gefur vísbendingar um að hægt sé að nýta hann til orkuöflunar. Miðað við hitann og þrýstinginn í holunni er hugsanlega hægt að vinna úr henni á bilinu 25-50 MW sem er fimm til tíu sinnum meira en hefðbundin vinnsluhola. Þó munu nýtingarmöguleikar djúpborunarholunnar ekki liggja fyrir fyrr en í árslok 2018 þegar fjölþættum rannsóknum á henni lýkur.

Verkefnið hefur verið mikið lærdómsferli. Nú stendur upp úr sú staðreynd að hægt er að bora svona langa og djúpa holu. Sú þekking mun nýtast í öðrum borverkum og einnig er sá möguleiki að dýpka aðrar holur byggt á þessari reynslu. Borlokin eru aðeins einn kafli í verkefninu en næstu skref eru vinnslutilraunir og blástursprófanir sem munu standa næstu tvö árin.

Ef tekst að nýta holuna þýðir það að djúpborunarholur gefa meira afl en hefðbundnar holur. Það þýðir að það þarf færri holur til orkuvinnslu með minni umhverfisáhrifum og lægri kostnaði en við hefðbundna vinnslu.


Frá opnun höfuðstöðva HS Orku, Eldborg í Svartsengi

Umhverfismál

Umhverfismálum gert hátt undir höfði 

HS Orka leitast við að gera umhverfismálum hátt undir höfði enda um afar brýnt málefni að ræða sem snertir okkur öll. . Undir Parísarsamkomulagið skrifuðu 195 þjóðir og skuldbundu sig til að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C. Það þurfa því allir að leggja hönd á plóg í umhverfismálum. Árið 2015 ritaði HS Orka undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og á fyrri hluta 2016 var unnið markvisst að því að setja mælanleg markmið á sviði umhverfismála. Um mitt ár 2016 birti fyrirtækið eftirfarandi markmið:

Ábyrgðartilfinning HS Orku gagnvart auðlindinni og skynsamlegri og fjölþættri nýtingu hennar hefur löngum verið mikil. Fyrirtækið fagnar því aukinni vitundavakningu í loftslags- og sorpmálum og mun af eljusemi halda áfram þeirri vinnu og auka jákvæð áhrif sín á samfélag og umhverfi.

Starfsfólk HS Orku fer yfir málin

Mannauður

Unnið hefur verið að endurskipulagningu hlutverka eftir að fyrir lá fullur aðskilnaður á milli HS Orku og HS Veitu við flutning höfuðstöðva HS Orku í Eldborg í Svartsengi í lok árs 2016. Áður hafði verið unnið samkvæmt þjónustusamningi þar sem fyrirtækin keyptu skilgreinda þjónustu hvort af öðru. Nokkuð var því um nýjar ráðningar en einnig voru nokkrir starfsmenn sem fóru yfir til HS Veitna við flutninginn. 

Á árinu létu sex starfsmenn af störfum og komu átta nýir til starfa.  Fastráðnir starfsmenn HS Orku í árslok voru 60 starfsmenn alls.


Mannauður

Piecharts

Fastráðnir starfsmenn HS Orku í árslok voru 60 alls. 

HS Orka starfsmannafjöldi 

60 starfsmenn
Öryggismál eru í hávegum höfð hjá fyrirtækinu

Gæðamál

Eftir vel heppnaða innleiðingu tók við hefðbundinn rekstur á vottuðu gæðakerfi samkvæmt ISO 9001. Innri úttektir voru framkvæmdar samkvæmt áætlun og unnið var að úrbótum í kjölfarið. Einnig voru tvær ytri úttektir framkvæmdar á gæðastjórnunarkefinu af BSI sem gengu mjög vel. Gæðaráðsfundir voru haldnir aðra hverja viku þar sem gæðakerfið var rýnt og þannig unnið að stöðugum umbótum. Í lok árs voru síðan fjórir starfsmenn þjálfaðir til að gerast innri úttektarmenn. Sóttu þeir námskeið og fóru í innri úttekt undir leiðsögn

Unnið var að innleiðing á ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðli og OHSAS 18001 öryggisstjórnunarstaðli og kemur sú vinna til með að halda áfram á næsta ári. Stefnt er að vottun á vormánuðum 2018. 

Gæðastjórnunarkerfi

Að byggja upp, innleiða og reka gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001 er stórt verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins. Skuldbinding stjórnenda er mjög mikilvæg sem og þátttaka starfsfólks. Ávinningur  gæðastjórnunarkerfisins  er að koma betur í ljós sem sést í daglegum störfum allra starfsmanna sem leggja sig fram við að gera sífellt betur og tryggja þannig stöðugar umbætur. Gæðamenning innan fyrirtækisins hefur aukist til muna og á eftir að gera enn frekar.

Öryggismál eru í hávegum höfð hjá HS Orku

Öryggismál

HS Orka vinnur að stöðugri uppbyggingu á sviði öryggis- og heilbrigðismála enda leitast fyrirtækið við að vera slysalaus vinnustaður. Starfsmenn og verktakar eru þó ætíð hvattir til að tilkynna slys og atvik í einfaldan gagnagrunn. Slík upplýsingagjöf gerir fyrirtækinu kleift að gera úrbætur sem dregur úr líkum á endurtekningu og leiðir til aukins öryggis á vinnustað. 

Slysa- og atvikaskráning

Alls voru 32 slys/atvik tilkynnt á árinu og er þeim skipt upp eftir því hvort um starfsmenn HS Orku eða verktaka er að ræða, staðsetningu og alvarleika. Verktakar tilkynntu alls 28 slys/atvik og þar af voru þrjú fjarveruslys með samtals 43 töpuðum dögum.

Starfsmenn HS Orku tilkynntu alls fjögur slys/atvik og þar af var ekkert fjarveruslys.

Slys/atvik verktaka

Slys/atvik verktaka án fjarveru

Slys/atvik HS Orku

Slys/atvik HS Orku án fjarveru

Tíðni fjarveruslysa er byggð á alþjóðlegum stöðlum. Þar sem ekkert fjarveruslys átti sér stað á árinu var slysatíðnin 0,00. Til samanburðar var slysatíðnin 5,25 árið 2015 og 0,00 árið 2014.

Slysatíðni HS Orku

Heimsóknir

Á hverju ári koma fleiri hundruð gesta í heimsókn til okkar bæði í Svartsengi og Reykjanes til að fræðast um Auðlindagarðinn, nýtingu á jarðhitanum og þau lífsgæði sem felast í hreinni og endurnýjanlegri auðlind. 

Gestir okkar koma víðs vegar að úr heiminum en það sem sameinar þá er áhugi þeirra á auðlindinni og þeirri þekkingu sem HS Orka býr yfir.  Einnig er mikill áhugi að skoða sýninguna Orkuverið Jörð sem er rekin í Reykjanesvirkjun. Sýningin fjallar ekki eingöngu um jarðvarma heldur sólkerfið, ólíka orkunýtingu á Íslandi og annars staðar í heiminum. 

Alls komu tæplega 6400 gestir til okkar í Svarstengi og Reykjanes árið 2016.

Fjöldi gesta árið 2016

6.400

Gönguferðir

HS Orka hefur í samstarfi við HS Veitur staðið fyrir gönguferðum á Reykjanesi undanfarin ár. Göngurnar eru misléttar og eiga því flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Alls voru farnar tíu gönguferðir og ein hjólaferð á tímabilinu júní – ágúst sem voru mjög vel sóttar en alls voru 340 manns í þessum ferðum. Rannveig Garðarsdóttir hélt utan um leiðsögn í göngunum og sagði frá ýmsum fróðleik í fagurri náttúru Reykjanesskagans..

10 gönguferðir og 1 hjólaferð á árinu 2016

340 göngumenn
Frá opn

Rafrænn ársreikningur

HS Orka hefur hætt að gefa út prentaða ársskýrslu fyrirtækisins og hún þess í stað gefin út á netinu. Þetta er gert í takt við tíðarandann en ekki síst til að fylgja eftir stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum samfélaginu til heilla. 

Sjálfan ársreikning félagsins er hægt að nálgast á pdf-sniði hér að neðan.